Segja má að einhver ótrúlegasti fótboltaleikur í langan tíma hafi farið fram í Fagralundi í Kópavogi í gær þegar KFK og Víðir mættust í 3. deild karla.
Allt stefndi í góðan 2-0 sigur KFK en komið var fram í uppbótartíma þegar allt fór í klessu hjá heimamönnum.
Víðis menn skoruðu þrjú mörk í uppbótartíma en það er sjaldséð að lið fái á sig þrjú mörk þegar komið er fram í uppbótartíma.
Einar Örn Andrésson skoraði fyrsta mark Víðis á 93 mínútu og mínútu síðar var Einar mættur aftur og jafnaði leikinn.
Það var svo á 96 mínútu sem Daniel Beneitez Fidalgo mætti og tryggði Víði sigurinn. Þrjú mörk á fjórum mínútum tryggðu Víði sigur í ótrúlegum leik.
KFK er með eitt best mannaða lið 3. deildarinnar en liðið fer illa af stað í deildinni og er með sex stig eftir sex leiki en Víðir er með 13 stig í öðru sæti.