Það kostar Manchester United 9 milljónir punda að reka Erik ten Hag úr starfi og er það ein af mögulegum ástæðum þess að ekki hefur verið tekin ákvörðun.
Eigendur og stjórnendur Manchester United hafa í tæpar tvær vikur metið stöðu þjálfarans og skoðað það að reka hann.
Það stóð til að reka Ten Hag áður en liðið varð óvænt enskur bikarmeistari með sigri á Manchester City.
Með því tryggði United sér sæti í Evrópudeildinni og í kjölfarið er dýrara að reka Ten Hag.
Launapakki Ten Hag hefði lækkað um tæpar 500 milljónir hefði United ekki náð Evrópusæti.
Ten Hag er með 9 milljónir punda fyrir tímabilið og því þarf United að rífa fram 1,6 milljarð ef sá hollenski verður rekinn en búist er við tíðindum í dag.