Mikael Nikulásson, harður stuðningsmaður KR og þjálfari KFA í 2. deild karla telur að Óskar Hrafn Þorvaldsson hafi ekki áhuga á að taka við KR.
Mikael ræddi málið í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin sem kom út í gærkvöldi. Óskar Hrafn hefur mikið verið orðaður við KR undanfarnar vikur.
Óskar sagði upp störfum hjá Haugesund í Noregi á dögunum en síðasta haust setti KR mikinn kraft í það að reyna að ráða Óskar, hann fór frekar til Noregs.
„Mesta pressan er hjá KR, eru úr leik í bikarnum og eru með eitt stig á heimavelli. Þeir eru búnir með Vestra og HK á heimavelli,“ sagði Mikael um stöðu Gregg Ryder.
Ryder tók við KR síðasta haust og eftir fína byrjun hefur hallað hratt undan fæti og margir stuðningsmenn KR kallað eftir breytingum.
„Það er greinilegt að Óskar Hrafn, hann er ekki klár í að taka við þessu. Ef það væri svo þá væri hann búinn að taka við.“