Mason Greenwood vill helst fara til Juventus í sumar samkvæmt ítalska miðlinum Gazzetta dello Sport.
Lánsdvöl Greenwood hjá spænska liðinu Getafe er lokið og snýr Englendingurinn ungi því formlega aftur til United.
Þar á hann þó enga framtíð og verður væntanlega seldur í sumar. Nokkur félög hafa áhuga.
Þar á meðal er Juventus, sem getur þó ekki gengið að 34 milljóna punda verðmiða sem United hefur sett á Greenwood.
Juventus er þó til í að leita leiða til að láta skiptin ganga upp og senda leikmann til United á móti.
Þar er enski kantmaðurinn Samuel Iling-Junior nefndur til sögunnar, en hann spilar með U-21 árs landsliðinu.
Þá er einnig minnst á að Federico Chiesa gæti farið til United á móti, en eins og Greenwood á hann aðeins ár eftir af samningi sínum.