KR komst í 2-0 í Reykjavíkurslagnum en þá hrundi allt hjá Vesturbæingum. Valur sneri dæminu algjörlega við og leiddi 2-4 í hálfleik. Leiknum lauk 3-5.
„Þá byrjar einhver ótrúlegasta frammistöða einnar varnarlínu, ég ætla bara að segja í sögu fótboltans. Þetta var KR í gær og Brasilía á heimavelli gegn Þýskalandi. Þeir voru ekkert eðlilega lélegir,“ sagði Tómas um fyrri hálfleik KR-inga á mánudag í Innkastinu á Fótbolta.net.
„Rúrik Gunnarsson, Finnur Tómas Pálmason, Axel Óskar Andrésson og Aron Kristófer Lárusson. Þetta er bara það lélegasta sem ég hef séð. Þeir voru hreint út sagt ömurlegir.“
Tómas lýsti því nánar hvað hann átti við.
„Hvernig þeir spiluðu, létu boltann skoppa. Þeir voru grasliðið en litu út fyrir að hafa aldrei séð gras á ævinni. Ábyrgðaleysi, samskiptaleysi, lengd á milli lína. Þetta var bara hrottalegt.“
KR-ingar hafa legið undir mikilli gagnrýni undanfarið. Liðið er í áttunda sæti með 11 stig og margir velta því fyrir sér hvort starf þjálfarans Gregg Ryder sé í hættu.