Manchester United hefur mikinn áhuga á að fá Leny Yoro frá Lille í sumar en miðlar á Spáni segja enska félagið fá samkeppni um hann frá Real Madrid.
Um er að ræða 18 ára gamlan miðvörð sem spilaði lykilhlutverk í liði Lille á leiktíðinni þrátt fyrir ungan aldur.
United er til í að borga meira en 50 milljónir punda fyrir Yoro en Real Madrid vill einnig fá hann. Þar á bæ flýta menn sér þó hægt og vilja að leikmaðurinn ungi sýni þolinmæði. Spánverjarnir eru ekki klárir með tilboð strax.
Marca segir frá því að fulltrúar Real Madrid hafi sett sig í samband við umboðsmann Yoro og beðið þá um að samþykkja ekki að fara til United, tilboð frá Real Madrid komi á endanum.
Lille hafnaði í fjórða sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Með liðinu leikur Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður Íslands.