Ísland fékk sín tækifæri til að skora í fyrri hálfleiknum en það voru hins vegar heimakonur sem leiddu 1-0 eftir hann. Sarah Puntigam skoraði markið af vítapunktinum á 26. mínútu. Íslenska liðið leitaði að jöfnunarmarki og þegar um stundarfjórðungur lifði leiks fékk liðið vítaspyrnu. Það var Glódís sem fór á punktinn og skoraði hún af miklu öryggi.
Stelpurnar okkar voru líklegri í lok leiks en meira var ekki skorað og lokatölur í Austurríki 1-1.
„Þetta er svolítið blendið. Ég er ánægð með hvernig við bregðumst við því að fá á okkur mark en það hefði verið ótrúlega sætt að fá sigur í dag. Við sköpuðum okkur færi til að vinna þennan leik, erum að skapa töluvert meira en þær. Þetta eru fín úrslit að fara með heim en það hefði verið sætt að fara með sigur,“ sagði Glódís við RÚV eftir leik.
Glódís var spurð út í þá ákvörðun að hún færi á vítapunktinn, en hún hefur ekki tekið mörg víti.
„Ég var að labba upp og heyrði Steina (þjálfara) öskra að ég verði að taka. Þá hugsaði ég: Ég verð að taka. Ég held að Karólína (Lea) hafi verið mest hissa, hún hélt ég væri að halda á boltanum fyrir hana,“ sagði Glódís og hló.