Erik ten Hag, stjóri Manchester United, skaut aðeins á verðandi stjóra Liverpool, Arne Slot.
Slot er að taka við Liverpool af Jurgen Klopp en hann tekur formlega við um helgina. Hann kemur frá Feyenoord, sem hafnaði í öðru sæti hollensku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni.
Ten Hag, sem er frá Hollandi eins og Slot og stýrði áður Ajax, var greinilega ekki mjög hrifinn af Feyenoord á leiktíðinni en liðið hafnaði átta stigum á eftir toppliði PSV.
„Fólk hefur talað Feyenoord of mikið upp. Þeir voru stöðugir í ár en ekki frábærir. PSV var tveimur klössum betri í öllum þáttum, að halda í boltann, pressa, hvað sem er,“ segir Ten Hag.
Hann hrósar þá Peter Bosz, stjóra PSV og klúbbnum í hástert.
„Bosz og hans starfsfólk gerði vel en þessi klúbbur er svo vel rekinn. PSV var betra en restin af deildinni og miklu betra en Feyenoord.“