Íslenski landsliðsframherjinn Orri Steinn Óskarsson er orðaður við nýkrýnda Evrópudeildarmeistara Atalanta í ítalska blaðinu Gazzetta dello Sport í dag.
Orri, sem verður tvítugur í lok sumars, þykir afar spennandi leikmaður en hann er á mála hjá FC Kaupmannahöfn. Þar skoraði hann 14 mörk á nýafstöðnu tímabili.
Gazzetta dello Sport líkir honum við Rasmus Hojlund, framherja Manchester United, sem var einmitt keyptur frá Atalanta í fyrra. Þá bendir blaðið á að hann sé hjá sömu umboðsskrifstofu (CAA Stellar) og Gianluca Scamacca, leikmaður liðsins.
Samningur Orra við FCK gildir út næstu leiktíð. Hann er metinn á 2 milljónir evra samkvæmt Transfermarkt og því vel viðráðanlegt fyrir Atalanta að fá hann.
Atalanta vann sem fyrr segir Evrópudeildina á dögunum. Þá hafnaði liðið í fjórða sæti Serie A. Verður það þátttakandi í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og því án efa mjög spennandi áfangastaður fyrir Orra.