Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness í körfubolta og íþróttafréttamaður, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni. Þátturinn kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og á Hringbrautarrás Sjónvarps Símans.
Albert Guðmundsson er að fara á kostum með Genoa í Serie A á þessari leiktíð. Hann er kominn með 14 mörk á þessari leiktíð og stórlið hafa áhuga á honum, þar á meðal Inter sem þegar hefur tryggt sér Ítalíumeistaratitilinn.
„Það virðast vera ansi margar dyr opnar fyrir hann og Serie A er rosalega heillandi heimur. Það væri gaman að sjá hann halda áfram vaxa þar. Þegar maður er á Ítalíu sér maður að það er allt í gangi og það er allt undirlagt þessu,“ sagði Kjartan.
Hann telur þó ólíklegt að Albert fari til Inter miðað við kaupstefnu félagsins.
„Ef maður horfir á Beppe Marotta og hvernig hann hefur keypt inn hjá Inter hefur hann meira farið í eldri leikmenn sem kosta minn á frjálsri sölu og svo hafa þeir tekið ein stór kaup. Þeir eru ansi vel settir fram á við með Lautaro og Marcus Thuram, svo voru þeir að fá Mehdi Taremi,“ sagði Kjartan en hann telur að það verði í forgangi hjá Inter að styrkja vörnina.
Hrafnkell tók til máls.
„Ég held hann endi ekki í Inter. Þeir eru með Lautaro Martinez og Marcus Thuram sem eru langbesta sóknardúóið í vetur. Ég held hann velji bara eitthvað annað. Lið sem vantar hann er Juventus. Þeir eru með Vlahovic en Chiesa er að fara og Albert væri fullkominn með honum.“
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar