Launakröfur knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hljóðuðu alls upp á tvær milljónir króna á mánuði samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.
Í upphaflegri frétt Viðskiptablaðsins var krafan sögð hafa verið fimm miljónir en það var leiðrétt nokkru síðar.
433.is sagði fyrst allra miðla frá því í gær að Gylfi væri búinn að skrifa undir, það hefur verið staðfest.
Þessi markahæsti landsliðsmaður Íslands er sem stendur með liðinu í æfingaferð, en hann hefur verið sterklega orðaður við Hlíðarendafélagið. Nú er hann genginn í raðir félagsins og tekur slaginn með því í Bestu deildinni í sumar.
Gylfi sneri aftur á völlinn í haust með Lyngby og íslenska landsliðinu en hann rifti samningi sínum við Lyngby vegna meiðsla í vetur og fór í endurhæfingu á Spáni.
Gylfi er einn fremsti leikmaður Íslandssögunnar, á yfir 80 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 27 mörk, flest allra.
Þá hefur Gylfi spilað fyrir Tottenham, Everton og Swansea í ensku úrvalsdeildinni, svo eitthvað sé nefnt.