Orri hafði ekki spilað keppnisleik með FCK á þessu ári en svo var hann skyndilega mættur í byrjunarliðið í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evróu gegn Manchester City í síðustu viku. Einnig byrjaði hann næsta leik í kjölfarið gegn Lyngby.
„Ég fékk þau skilaboð á ákveðnum tímapunkti á tímabilinu að það væru aðrir leikmenn á undan mér í goggunarröðinni. Þetta var mjög sérstakt, vægast sagt, því annaðhvort var ég utan hóps eða í byrjunarliðinu. Ég hef aldrei upplifað svona áður og þetta var virkilega krefjandi andlega því þú veist í raun ekkert hver staða þín er og það tekur á,“ segir Orri við Morgunblaðið í dag.
Neestrup hefur verið töluvert gagnrýndur fyrir meðferðina á Orra á leiktíðinni.
„Það lenda allir í mótlæti á fótboltaferlinum en stóra spurningin er alltaf hvernig þú tekst á við mótlætið. Ég fékk þau skilaboð að ég þyrfti að halda áfram að standa mig vel á æfingum, sem og ég gerði. Hjá mér kom ekkert annað til greina en að vinna mig aftur inn í liðið og það tókst.
Ég var verðlaunaður fyrir góða frammistöðu á æfingum með byrjunarliðssæti gegn Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Manchester. Mér fannst ég komast vel frá mínu í leiknum og er ánægður með frammistöðu mína gegn City,“ segir Orri.