Sverrir Ingi Ingason hefur átt betri kvöld en hann spilaði með liði Midtjylland gegn Aarhus í kvöld.
Um var að ræða leik í dönsku úrvalsdeildinni en Midtjylland vann 3-2 útisigur eftir sigurmark á 96. mínútu.
Sverrir fékk rautt spjald og dæmt á sig vítaspyrnu á 75. mínútu sem Aarhus skoraði úr og jafnaði í 2-2.
Fyrir það hafði Sverrir einnig fengið dæmt á sig vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem heimamenn skoruðu einnig úr.
Midtjylland var því með níu menn á vellinum en Paulinho hafði fyrir það fengið rautt eftir tvö gul spjöld líkt og Sverrir.
Þrátt fyrir það vann Midtjylland 3-2 sigur á dramatískan hátt en þrettán gul spjöld fóru á loft í leiknum.