„Ég vann með Guðna í tvö ár og ég þekki Þorvald líka,“ sagði Vignir Már Þormóðsson frambjóðandi til formanns KSÍ í samtali við Morgunblaðið.
Vignir er að berjast við Þorvald Örlygsson og Guðna Bergsson um embættið en 147 þingfulltrúar KSÍ kjósa formann sambandsins á laugardag.
Vignir segist vera mjög hissa á því að Guðni sé í framboði og er það vegna þess að Guðni sagði starfi sínu lausi haustið 2021.
„Við höfum allir okkar kosti og allir okkar galla. Ég er samt undrandi á Guðna að bjóða sig fram, miðað við það sem gerðist. Það er ekki hægt að segja neitt annað en að hann hafi hrökklast úr embætti, og öll stjórnin fylgdi svo í kjölfarið,“ segir Vignir.
Guðni og stjórn KSÍ sagði af sér eftir að málefni landsliðsmanna báru á góma og þeir voru sakaðir um ýmislegt misjafnt. Vignir telur Guðna ekki hafa gert málið upp á nógu góðan hátt.
„Mér finnst hann ekki hafa sýnt þá auðmýkt til baka og það er kannski það sem mér finnst skrítnast í þessu.“