Eden Hazard sem er hættur í fótbolta segist hafa bætt á sig nokkrum kílóum á hverju sumri en hann hafi litið á sumarfrí sem algjört frí.
Hazard ákvað 33 ára gamall að hætta í fótbolta en hann hafði fengið nóg af leiknum.
„Þetta er satt, á hverju sumri bætti ég 4-5 kílóum á mig. Ég taldi að eftir tíu mánaða tímabil að ég ætti skilið að slaka á,“ sagði Hazard.
„Ekki biðja mig um að gera neitt, ég naut þess að vera með fjölskyldunni og fara á ströndina. Ég spilaði fótbolta með börnunum á ströndinni en ekki biðja um að hlaupa.“
Hann segist hafa farið hægt af stað á hverju tímabili. „Ef þú horfir á feril minn þá var ég hægur af stað en frá september eða október þá fór ég á flug.“
„Ég kom alltaf úr fríi með fimm kíló á mér, ég vissi það alveg.“
„Ég er frá Belgíu og elska bjórinn minn en við eigum besta bjór í heimi. Ég fékk mér líka oft einn eða tvo eftir leiki.“