Emma Hayes, þjálfari kvennaliðs Chelsea, hefur sagt frá skemmtilegu augnabliki sem hún upplifði með syni sínum sem er fimm ára gamall.
Hayes tók ákvörðun á síðasta ári að yfirgefa Chelsea og verður næsti landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.
Hayes óttaðist að sonur hennar myndi taka illa í flutnina til Bandaríkjanna en viðbrögð hans komu verulega á óvart.
,,Ég sagði honum að mamma væri með tækifæri á að þjálfa bandaríska landsliðið, hvort hann vildi fara þangað eða vera um kyrrt,“ sagði Hayes.
,,Ég vissi ekkert hvernig hann myndi bregðast við en hann brosti, faðmaði og kyssti mig og sagði: ‘Förum til Bandaríkjanna mamma! Ég er spenntur, ég vil fara þangað.’
,,Ég trúði varla mínum eigin eyrum. Það var allt saman, það var hvatningin sem ég þurfti.“