Chris Kavanagh verður með flautuna þegar úrslitaleikur enska deildarbikarsins fer fram, þar mætast Liverpool og Chelsea í áhugaverðum slag.
Liverpool ætti ef allt er eðlilegt að vinna leikinn en Chelsea hefur hikstað hressilega á þessu tímabili.
Chris Kavanagh er ekki í miklu uppáhaldi hjá Jurgen Klopp, stjóra Liverpool sem hefur ítrekað lesið yfir Kavanagh.
Þannig fékk Kavanagh að heyra það í desember eftir 1-1 jafntefli Liverpool og Arsenal á Anfield. Átti Liverpool þá líklega að fá vítaspyrnu þegar Martin Odegaard handlék knöttinn.
„Ég sá þetta ekki í leiknum en ég sá þetta eftir leik og allir geta verið sammála um að þetta var hendi,“ sagði Klopp þá.
Í febrúar árið 2021 las Klopp yfir Kavanagh fyrir að dæma vítaspyrnu til Everton gegn Liverpool. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr spyrnunni í 2-0 sigri Everton.