Theodór Elmar Bjarnason, fyrrum landsliðsmaður og leikmaður KR, var gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum, sem kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarpi Símans.
Elmar lék á 41 A-landsleik á landsliðsferlinum og voru nokkur atvik rifjuð upp í þættinum, til að mynda þegar hann lagði upp mark fyrir Arnór Ingva Traustason sem tryggði sigur á Austurríki á EM 2016, markið sem gerði Gumma Ben heimsfrægan:
„Það er alveg klárlega einn af hápunktum ferilsins. Það var æðislegt augnablik sem lifir sterkt í minningunni. En það voru líka tvö önnur atvik sem ég hugsa reglulega um í þessum leik.
Í fyrsta lagi var ég millimetra frá því að fá á mig víti áður en ég keyrði upp þarna. Og í öðru lagi átti ég alls ekkert að vera þar sem ég var. Lars Lagerback hraunaði aðeins yfir mig eftir leik, glottandi. Það var skemmtilegt hvernig þetta þróaðist en sýnir hvað er stutt á milli í þessu,“ sagði Elmar léttur.
Umræðan í heild er í spilaranum.