Tveimur leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni það sem af er kvöldi.
Þrefaldir meistarar Manchester City áttu ekki í nokkrum vandræðum með nýliða Burnley. Julian Alvarlez kom þeim í 2-0 með mörkum á 16. og 22. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Rodri jók forskotið strax í upphafi seinni hálfleiks og úrslitin ráðin. Ameen Al Dakhil klóraði í bakkann fyrir Burnley í uppbótartíma en þar við sat, lokatölur 3-1.
Jóhann Berg Guðmundsson spilaði tæpan klukkutíma fyrir Burnley í leiknum.
Manchester City er aftur komið í annað sæti deildarinnar með 46 stig. Burnley er í nítjánda sæti með 12 stig, 7 stigum frá öruggu sæti.
Tottenham tók á móti Brentford á sama tíma. Gestirnir byrjuðu með látum en Neal Maupay kom þeim yfir eftir stundarfjórðung. Staðan í hálfleik var 0-1.
Heimamenn sneru dæminu hins vegar við á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks. Þá skoruðu þeir Destiny Udogie, Brennan Johnson og Richarlison allir.
Ivan Toney minnkaði muninn fyrir Brentford á 67. mínútu en nær komst liðið ekki. Lokatölur 3-2.
Tottenham er á ný komið í fjórða sæti deildarinnar en Brentford er í því fimmtánda.