Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals og Sigurður Kristinn Pálsson framkvæmdarstjóri félagsins hafa skrifað pistil sem er svar við dylgjum Ívars Ingimarssonar, sem lætur brátt af störfum sem stjórnarmaður hjá KSÍ.
Ívar gefur ekki kost á sér til endurkjörs til stjórnar KSÍ eftir tvö ár og skaut föstum skotum á ÍTF (Íslenskan toppfótbolta) í pistli sínum en um er að ræða samtök sem sjá um hagsmuni félaga í efstu og næst efstu deild karla og kvenna.
Ívar Ingimarsson stjórnarmaður KSÍ skrifaði pistil á dögunum þar sem hann tilkynnti þá ákvörðun sína að gefa ekki áfram kost á sér í stjórn sambandsins. Hann gagnrýndi að ÍTF ætti fulltrúa í stjórn KSÍ og sagði. „Þetta var umdeild ákvörðun á sínum tíma en rökin fyrir þessu voru meðal annars þau að reyna að bæta samskiptin KSÍ og ÍTF. Mín reynsla er sú að þetta hafi verið vond ákvörðun,“ sagði Ívar meðal annars.
Börkur og Sigurður Kristinn eru ekki sáttir við skrif Ívars og segja meðal annars í pistli. „Í fyrsta lagi þá má rifja upp að það voru félagslið í efstu deild sem jafnframt eru aðilar af ÍTF sem hvöttu Ívar til að bjóða sig fram til stjórnar KSÍ á sínum tíma og flest ef ekki öll þeirra kusu hann til stjórnasetu. Það er hægt að taka undir ýmislegt í pistli Ívars en þó ekki allt sem þar kemur fram. Hvað varðar rétt fulltrúa ÍTF til stjórnarsetu KSÍ, þá er einfaldlega verið að vinna eftir sömu hugmyndafræði og gert er hjá sambærilegum hagsmunasamtökum og ÍTF er á Norðurlöndum. Það að formaður ÍTF sitji í stjórn KSÍ, er eðlilegt og skynsamlegt þar sem hagsmunir KSÍ og ÍTF eru gríðarlega miklir og aðildarfélög ÍTF telja mikinn meirihluta þeirra sem stunda knattspyrnu á Íslandi,“ skrifa þeir félagar.
Börkur og Sigurður halda svo áfram og skrifa. „Það sem er mikilvægast í þessu öllu er þó að samstarf KSÍ og ÍTF þarf að vera byggt á trausti og góðum samskiptum knattspyrnunni til heilla. Ef ÍTF ætti að standa á eigin fótum eins og Ívar leggur til í pistli sínum þá er hægt að velta því upp hvort ÍTF eigi þá að taka yfir allt mótahald og fá þ.a.l allar tekjur sem KSÍ fær frá UEFA/FIFA sem til koma vegna tveggja efstu deilda karla og kvenna. Kannski væri skynsamlegra að skoða frekara samstarf ÍTF og KSÍ, auka og efla samvinnu með þeim hætti að þessi tvö sambönd væru undir sama þaki?.“
Félög sem eru í ÍTF og fleiri hafa gagnrýnt KSÍ fyrir það að hækka gjöld og lækka greiðslur til félaga á sama tíma. „Það er rétt sem kemur fram hjá Ívari að KSí hefur hækkað álögur á aðildarfélögin en bæta má við að KSÍ hefur líka lækkað framlög til aðildarfélagana, líklegast til að niðurgreiða kostnað vegna landsliðverkefna. Þessi viðsnúningur nemur tugum milljóna á örskömmum tíma, og án þess að sérstakt samtal hafi farið fram við aðildarfélögin um þessar skerðingar.“
„Það berst okkur til eyrna sem sitjum í stjórnum aðildarfélaga ÍTF að KSÍ finnist í lagi að lækka greiðslur til aðildarfélaga sinna þar sem þau fái nú hærri sjónvarpsgreiðslur en áður. Í þessu samhengi er gott að minna sig á að áður en ÍTF tók við samningamálum hvað varðar sjónvarpsgreiðslur voru greiðslurnar um 12 milljónir en eru nú um 23 milljónir á hvert lið í efstu deild karla. Sú hækkun sem varð til frá því að ÍTF tók yfir þessi mál hverfa hins vegar að stærstum hluta vegna aðgerða KSÍ með hækkun gjalda og lækkun framlaga. Kostnaður við að senda landslið Íslands erlendis til að spila æfingaleiki er verulegur og erum við að taka þátt í færri verkefnum en önnur knattspyrnusambönd Evrópu. Hlutfallslegur kostnaður Íslands er miklu hærri m.a vegna þess að önnur knattspyrnusambönd spila t.a.m æfingaleiki í Evrópu án mikilla ferðalaga, hótelkostnaður er lægri vegna færri gistidaga, vegalengdirnar eru styttri og oftar en ekki er farið að morgni og komið heim seint að kvöldi. Það er því óraunhæft fyrir okkur að spila jafn marga æfingaleiki og aðrar þjóðir gera og geta gert.“
„Ívar veltir því fyrir sér í pistli sínum eins og reyndar fleiri innan stjórnar KSÍ hafa gert hvort eigi að velta dómarakostnaði yfir á félögin. Rétt er að benda á í þessu samhengi að knattspyrnusamböndin í Evrópu, þar á meðal KSÍ fá fjárframlag frá UEFA/FIFA til greiðslu á dómarakostnaði og öðrum verkefnum hjá sambandinu, líklega um 3 milljónir Evra árlega. Svo er alltaf gott að muna og virða það að KSÍ er ekkert nema félögin sem að sambandinu standa. Það eru jú félögin sem ala upp landsliðsfólkið okkar og það er að tilstilli félaganna að koma þessu fólki erlendis í atvinnumennsku. Það eru félögin sem bera allan kostnað af knattspyrnulegu uppeldi leikmanna og það eru félögin sem greiða t.d tryggingar og laun leikmanna í landsliðsverkefnum á vegum KSÍ svo dæmi séu tekin. “
Þeir enda svo pistil sinn og skora á fólkið sem ræður í KSÍ að tala við félögin. „Þá má einnig benda á að formaður, framkvæmdarstjóri og stjórnarmenn KSÍ mættu vera sýnilegri og mun duglegri að vera í góðum samskiptum við aðildarfélögin sín.“
Pistill þeirra í heild er hér að neðan:
Hugleiðingar eftir lestur pistils frá Ívari Ingimarssyni stjórnarmanni KSÍ.
Ívar Ingimarsson stjórnarmaður KSÍ skrifaði pistil á dögunum þar sem hann tilkynnti þá ákvörðun sína að gefa ekki áfram kost á sér í stjórn sambandsins.
Í tilefni þess langar okkur að koma eftirfarandi á framfæri.
Í fyrsta lagi þá má rifja upp að það voru félagslið í efstu deild sem jafnframt eru aðilar af ÍTF sem hvöttu Ívar til að bjóða sig fram til stjórnar KSÍ á sínum tíma og flest ef ekki öll þeirra kusu hann til stjórnasetu.
Það er hægt að taka undir ýmislegt í pistli Ívars en þó ekki allt sem þar kemur fram. Hvað varðar rétt fulltrúa ÍTF til stjórnarsetu KSÍ, þá er einfaldlega verið að vinna eftir sömu hugmyndafræði og gert er hjá sambærilegum hagsmunasamtökum og ÍTF er á Norðurlöndum. Það að formaður ÍTF sitji í stjórn KSÍ, er eðlilegt og skynsamlegt þar sem hagsmunir KSÍ og ÍTF eru gríðarlega miklir og aðildarfélög ÍTF telja mikinn meirihluta þeirra sem stunda knattspyrnu á Íslandi.
Það sem er mikilvægast í þessu öllu er þó að samstarf KSÍ og ÍTF þarf að vera byggt á trausti og góðum samskiptum knattspyrnunni til heilla. Ef ÍTF ætti að standa á eigin fótum eins og Ívar leggur til í pistli sínum þá er hægt að velta því upp hvort ÍTF eigi þá að taka yfir allt mótahald og fá þ.a.l allar tekjur sem KSÍ fær frá UEFA/FIFA sem til koma vegna tveggja efstu deilda karla og kvenna.
Kannski væri skynsamlegra að skoða frekara samstarf ÍTF og KSÍ, auka og efla samvinnu með þeim hætti að þessi tvö sambönd væru undir sama þaki?
Það er mikilvægt að hafa í huga hvert meginhlutverk og tilgangur KSÍ er skv. 2.grein laga sambandsins. Samkvæmt lögum eru helstu hlutverk KSÍ talin upp í níu atriðum og snúa sjö þeirra að knattspyrnunni innanlands, m.a. að vinna að eflingu knattspyrnu í landinu á öllum stigum. Einungis tvö atriði eru nefnd er snúa að því að tefla fram landsliðum og félögum í alþjóðlegri keppni. Ótvírætt hlutverk KSÍ samkvæmt lögum er því að efla knattspyrnuna fyrst og fremst innanlands.
Það er rétt sem kemur fram hjá Ívari að KSí hefur hækkað álögur á aðildarfélögin en bæta má við að KSÍ hefur líka lækkað framlög til aðildarfélagana, líklegast til að niðurgreiða kostnað vegna landsliðverkefna. Þessi viðsnúningur nemur tugum milljóna á örskömmum tíma, og án þess að sérstakt samtal hafi farið fram við aðildarfélögin um þessar skerðingar.
Það berst okkur til eyrna sem sitjum í stjórnum aðildarfélaga ÍTF að KSÍ finnist í lagi að lækka greiðslur til aðildarfélaga sinna þar sem þau fái nú hærri sjónvarpsgreiðslur en áður. Í þessu samhengi er gott að minna sig á að áður en ÍTF tók við samningamálum hvað varðar sjónvarpsgreiðslur voru greiðslurnar um 12 milljónir en eru nú um 23 milljónir á hvert lið í efstu deild karla. Sú hækkun sem varð til frá því að ÍTF tók yfir þessi mál hverfa hins vegar að stærstum hluta vegna aðgerða KSÍ með hækkun gjalda og lækkun framlaga.
Kostnaður við að senda landslið Íslands erlendis til að spila æfingaleiki er verulegur og erum við að taka þátt í færri verkefnum en önnur knattspyrnusambönd Evrópu. Hlutfallslegur kostnaður Íslands er miklu hærri m.a vegna þess að önnur knattspyrnusambönd spila t.a.m æfingaleiki í Evrópu án mikilla ferðalaga, hótelkostnaður er lægri vegna færri gistidaga, vegalengdirnar eru styttri og oftar en ekki er farið að morgni og komið heim seint að kvöldi. Það er því óraunhæft fyrir okkur að spila jafn marga æfingaleiki og aðrar þjóðir gera og geta gert.
Það væri frekar að Ívar ásamt félögum sínum í stjórn KSÍ tæki höndum saman við ÍTF og fari í það af krafti að sækja svokallaðar Long Distance bætur til UEFA og beita sér fyrir breytingu á reglum í kringum það og tengja sterkar við eylönd eins og t.d Ísland.
KSÍ og félögin greiða hlutfalslega umtalsvert hærri ferða- og hótelkostnað en önnur sérsambönd eða knattspyrnufélög.
Það er gríðarleg óeigingjörn vinna sjálfboðaliða hjá öllum íþróttafélögunum sama hvaða íþróttagrein það er sem skapa líklega um 60%-70% af tekjum þeirra.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá fer sjáfboðaliðum mjög fækkandi innan íþróttahreyfingarinnar sem er skiljanlegt að mörgu leyti þar sem vinnan, kröfurnar og tilætlunarsemin er orðin ansi mikil.
Ívar veltir því fyrir sér í pistli sínum eins og reyndar fleiri innan stjórnar KSÍ hafa gert hvort eigi að velta dómarakostnaði yfir á félögin. Rétt er að benda á í þessu samhengi að knattspyrnusamböndin í Evrópu, þar á meðal KSÍ fá fjárframlag frá UEFA/FIFA til greiðslu á dómarakostnaði og öðrum verkefnum hjá sambandinu, líklega um 3 milljónir Evra árlega.
Svo er alltaf gott að muna og virða það að KSÍ er ekkert nema félögin sem að sambandinu standa. Það eru jú félögin sem ala upp landsliðsfólkið okkar og það er að tilstilli félaganna að koma þessu fólki erlendis í atvinnumennsku. Það eru félögin sem bera allan kostnað af knattspyrnulegu uppeldi leikmanna og það eru félögin sem greiða t.d tryggingar og laun leikmanna í landsliðsverkefnum á vegum KSÍ svo dæmi séu tekin.
Þá má einnig benda á að formaður, framkvæmdarstjóri og stjórnarmenn KSÍ mættu vera sýnilegri og mun duglegri að vera í góðum samskiptum við aðildarfélögin sín.
Að lokum viljum við þakka Ívari fyrir sín störf innan KSÍ sem fer senn að ljúka og óskum honum velfarnaðar í komandi verkefnum.
Með fótboltakveðju
E.Börkur og Diddi