Atvikið átti sér stað í Hollandi en Albert, sem undanfarið hefur farið á kostum með ítalska liðinu Genoa, spilaði þar í landi um árabil.
Guðmundur var gestur hlaðvarpsins Chess After Dark á dögunum og barst það í tal þegar hann og Albert lentu í óhappi á vespu.
„Þá leyfði ég syni mínum að keyra vespu í Hollandi. Ég var aftan á og hann ætlaði bara að keyra inn í bíl,“ sagði Guðmundur og hló.
Betur fór þó en á horfðist.
„Ég náði að öskra eitthvað á hann, hann snarstoppaði og við skutumst af,“ bætti Guðmundur við.
Sem fyrr segir er Albert í dag á mála hjá Genoa. Hann er kominn með 11 mörk og 3 stoðsendingar í öllum keppnum. Í kjölfarið hefur kappinn verið orðaður við stærri lið víða um Evrópu.