Það er nokkuð ljóst hvern Liverpool goðsögnin Jamie Carragher myndi vilja fá inn sem næsta stjóra Liverpool á eftir Jurgen Klopp.
Klopp tilkynnti fyrir helgi að í lok tímabils myndi hann hætta sem stjóri Liverpool eftir níu farsæl ár. Margir eru slegnir en nú hefst leitin að nýjum stjóra.
Margir nefna Xabi Alonso, fyrrum leikmann Liverpool, Real Madrid og Bayern Munchen, en hann hefur verið að gera frábæra hluti sem stjóri Bayer Leverkusen í Þýskalandi.
„Þegar þú horfir í kringum þig núna til að finna einhvern sem passar Liverpool er ekki hægt að horfa framhjá fyrrum liðsfélaga mínum Xabi Alonso,“ segir Carragher.
„Hann nýtur svo mikillar virðingar hjá Liverpool fyrir það sem hann gerði sem leikmaður. Hann vann Meistaradeildina og hefur líka orðið heimsmeistari. Þetta er bara leikmannaferillinn.“
„Hann hefur líka unnið undir stjórn frábærra stjóra. Rafa Benitez, Jose Mourinho, Carlo Ancelotti, öll þessi stóru nöfn,“ segir Carragher enn fremur.