Marcus Rashford var of veikur til að taka þátt í leik Manchester United og Newport í enska bikarnum í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu United en liðið vann 4-2 sigur á Newport sem er í fjórðu efstu deild.
,,Marcus Rashford er ekki nógu heill til að vera í hópnum gegn Newport eftir veikindi, hann er á Carrington æfingasvæðinu og kemur sér af stað,“ sagði í tilkynningunni.
Rashford missti af æfingu United á föstudaginn en samkvæmt Erik ten Hag, stjóra liðsins, var hann veikur.
Rashford var hins vegar myndaður á skemmtistað í Belfast á fimmtudag og er útlit fyrir að hann sé að taka út refsingu vegna þess.