Gylfi er meiddur og er í endurhæfingu. Lyngby vonast til þess að Gylfi mæti aftur til félagsins ef hann nær sér af meiðslunum. Kappinn sneri aftur á knattspyrnuvöllinn síðasta haust eftir tveggja ára hlé. Hann hafði verið að finna taktinn þegar bakslag kom í endurhæfinguna.
Freyr Alexandersson fékk Gylfa til að snúa aftur á völlinn en Freyr hætti sem þjálfari Lyngby í upphafi árs og nú hefur Gylfi rift samningi sínum.
„Hann vildi ekki fá laun. Þetta sýnir hversu mikill öðlingur hann er,“ sagði sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Meðlimir þáttarins veltu framtíð hans svo fyrir sér.
„Ég held hann fari aldrei í Lyngby aftur. Ég held hann fari bara til Freysa aftur. Annað hvort það eða hann endar bara heima í FH,“ sagði Mikael Nikulásson, en títtnefndur Freyr er tekinn við Kortijk í Belgíu.
„Ég trúi ekki að hann nenni því,“ sagði Kristján um hugsanlega heimkomu Gylfa.
Danski blaðamaðurinn Sandro Spasojevic hrósaði Gylfa einnig í gær.
„Knattspyrnumenn eru oft gagnrýndir fyrir að vera miklir egóistar en þetta mál Gylfa Þórs Sigurðssonar er andstæða þess,“ sagði Spasojevic, sem skrifar fyrir Bold.
„Hann hefur þénað mikið af peningum í ensku úrvalsdeildinni og og fer líklega ekki svangur að sofa, þetta er samt frábær framkoma hjá honum.“
Samkvæmt heimildum 433.is er Gylfi Þór að íhuga framtíð sína, hann er nú í endurhæfingu vegna meiðslanna og útkoman þar hefur mikil áhrif á næstu skref hans.