Því hefur verið haldið fram að Aron Bjarnason sé á leið í Breiðablik en Sirius í Svíþjóð er reiðubúið að selja hann. Talað hefur verið um að sænska félagið vilji fá 12 og allt upp í 18 milljónir króna.
Breiðablik og KR eru sögð hafa verið að berjast um Aron undanfarna daga en í gær greindi Gula Spjaldið frá því að Aron hefði valið Breiðablik.
Valur hafði skoðað það að fá Aron í sínar raðir enda reyndist hann liðinu frábærlega sumarið 2020 þegar hann kom á láni til Vals þegar liðið varð Íslandsmeistari.
Samkvæmt heimildum 433.is var þó Valur ekki tilbúið að borga þá upphæð sem Sirius krefst þess að fá fyrir Aron, telur félagið það ekki réttlætanlegt að greiða svona upphæð fyrir leikmann sem hefur líklega ekkert endursölu virði.
Valur er hins vegar að leita leiða til að styrkja lið sitt og er búist við að félagið kynni nýjan leikmann á allra næstu dögum.
Framtíð Arons ætti að skýrast á næstu dögum en hann verður 29 ára gamall og hefur spilað fyrir Þrótt, Fram, Breiðablik og Val hér á landi.