Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, er sá nýjasti til að kvarta yfir leikjaálagi síns liðs yfir jólin.
Chelsea spilar gegn Crystal Palace á miðvikudag aðeins þremur dögum eftir að hafa mætt Wolves á aðfangadag og tapaði þar, 2-1.
Stuttu fyrir það spilaði Chelsea gegn Newcastle í enska deildabikarnum og er töluvert álag á leikmönnum liðsins.
Margir stjórar hafa kvartað yfir álaginu undanfarin ár en enska knattspyrnusambandið stendur fast á sínu og fá sum lið einfaldlega erfiðara prógram en önnur.
,,Vandamálið er að öll lið upplifa mismunandi kringumstæður. Ef við spilum öll þann 24. og svo 27. þá erum við í sömu málum,“ sagði Poch.
,,Það er vandamál að eitt lið spili þann 21. og svo næsta leik þann 27. Það gefur þeim gríðarlegt forskot en ég er ekki að kvarta.“
,,Þeir þurfa að skipuleggja þetta betur því þetta er ekki sanngjarnt. Ég vil ekki koma með afsakanir en þetta eru staðreyndir.“