Erik ten Hag, stjóri Manchester United, vildi ekki ræða það hvort Marcus Rashford hefði rokið af velli beint eftir tapið gegn West Ham í gær.
United tapaði þá 2-0 en allir leikmenn United fyrir utan Rashford löbbuðu til stuðningsmanna félagsins og þökkuðu stuðninginn.
Rashford hins vegar rauk beint inn í klefa eftir ömurlega innkomu sína í leikinn.
„Ég sá þetta ekki, ég veit ekki hvað gerðist,“ sagði Ten Hag eftir leik en ljóst er að Rashford er ekki að hjálpa sér þarna.
Rashford hefur verið á bekknum undanfarna leiki en hann hefur átt ömurlegt tímabil eins og margir í United.