Jose Enrique, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur gagnrýnt Jurgen Klopp, stjóra liðsins, fyrir ummæli sem hann lét falla í miðri viku.
Klopp gagnrýndi þar stuðningsmenn Liverpool og vill meina að andrúmsloftið á Anfield hafi verið ansi slakt í leik gegn West Ham í deildabikarnum.
Klopp gæti verið að kveikja í stuðningsmönnum liðsins fyrir stórleik gegn Arsenal sem hefst klukkan 17:30 í kvöld.
,,Ég skil ekki af hverju hann ákvað að segja þetta. Ég styð Jurgen Klopp í nánast öllu sem hann gerir en ég skil ekki af hverju hann kvartar yfir andrúmsloftinu,“ sagði Enrique.
,,Þetta var bikarleikur í miðri viku, þetta er ekki eins mikilvægur leikur og í deildinni. Klopp vildi örugglega fá jákvæð viðbrögð frá stuðningsmönnunum.“
,,Það er engin spurning að þeir munu láta í sér heyra gegn Arsenal – Anfield verður í fullu fjöri.“