Íþróttafréttamaðurinn Stefán Árni Pálsson er gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar sem kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Til að mynda var rætt um þær fréttir sem bárust á dögunum um að stjórn KSÍ hefði veitt Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni sambandsins, umboð til að ræða við Age Hareide landsliðsþjálfara um nýjan samning.
Margir hafa gagnrýnt þetta þar sem Vanda yfirgefur formannstólinn í febrúar.
„Ég viðurkenni að mér finnst þetta stórskrýtið. Mér finnst að það ætti að gefa Hareide þennan mars-glugga og sjá til eftir það. Þetta er ekkert flóknara en það,“ sagði Hrafnkell.
„Hann er greinilega að ýta á eftir þessu. Hann vill tryggja næstu ár sín,“ bætti hann við.
Stefán tók í sama streng.
„Ég er sammála því. Mér finnst þetta mjög skrýtið og það virðist sem svo að umboðsmaður Hareide sé að pressa á þetta því það liggur ekkert á þessu.“
Umræðan í heild er í spilaranum hér ofar og þátturinn í heild hér að neðan.