Það er ólíklegt að Mikel Arteta fari í bann fyrir ummæli sín eftir leik Arsenal gegn Newcastle á laugardag samkvæmt enskum miðlum.
Arteta var vægast sagt heitt í hamsi eftir 1-0 tap Arsenal á laugardag. Sigurmark Newcastle var ansi umdeilt og eftir leik hraunaði spænski stjórinn yfir dómgæsluna á Englandi og sagði að hana þyrfti að bæta ef hún ætti að vera nógu góð fyrir bestu deild í heimi, ensku úrvalsdeildina.
Mikið hefur verið rætt um hvort Arteta fái bann fyrir ummæli sín en Arsenal hefur síðan hann viðhafði þau gefið út yfirlýsingu honum til stuðnings.
Þrátt fyrir að Arteta hafi harðlega gagnrýnt dómgæsluna í ensku úrvalsdeildinni efaðist hann ekki um heilindi ensku dómarastéttarinnar í viðtölum eftir leik og því talið líklegt að hann sleppi við bann og fái aðeins viðvörun.
Talið er að aganefnd enska knattspyrnusambandsins muni á morgun tilkynna hvort eða hvernig refsingu Arteta hlýtur fyrir ummæli sín.