Ólafur er auðvitað einn af reynslumeiri þjálfurum hér á landi en síðast gegndi hann stöðu yfirmanns íþróttamála hjá Breiðabliki. Hann tekur við starfinu hjá Þrótti af Nik Chamberlain sem tók við Breiðabliki.
„Þetta leggst gríðarlega vel í mig. Ég er mjög spenntur fyrir því að þjálfa stelpurnar hjá Þrótti. Ég fann þjálfarafiðrildin í maganum koma upp aftur,“ segir Ólafur í þættinum.
„Ég var búinn að sjá liðið spila margoft í gegnum síðustu ár, það er búinn að vera mikill stígandi og góður bragur á liðinu. Þetta er vel þjálfað lið og góður hópur, skemmtilegir leikmenn.“
Hingað til hefur Ólafur þjálfað í karlaboltanum og er hann spenntur fyrir því að þjálfa í Bestu deild kvenna.
„Ég vildi líka taka þá áskorun að þjálfa stelpur, svona sem þjálfari sem hef meira verið kenndur við fótboltann hjá strákunum. Það var ansi gott, þegar stelpurnar fengu að vita hver þessi karl væri sem væri að fara að þjálfa þær þurftu þær að gúggla hver þetta væri. Það er bara frábært. Nú kem ég inn sem nýr þjálfari,“ segir Ólafur og hlær.
„Leikurinn er sá sami að því leyti að þú þarft að hafa eitthvað plan þegar þú ert með boltann og andstæðingurinn er með boltann. Að setja upp æfingar, þetta tæknilega í kringum fótboltann er það sama. En það má vera, og maður hefur svosem heyrt það, að kennskufræðin og hvernig þú þjálfar sé að einhverju leyti öðruvísi.“
Ég hef alltaf verið mjög forvitinn á þessa hluti og sekk mér kannski enn dýpra í þá núna. Svo er þetta svolítið „learn by doing.“
Þróttur hefur fest sig rækilega í sessi í Bestu deild kvenna undanfarin ár og hafnaði liðið í þriðja sæti í ár, 11 stigum á eftir toppliði Vals. Markmiðið er að gera enn betur.
„Markmiðið er að gera betur. Ef þú kíkir á tímabilið í fyrra er stigasöfnun á móti liðunum sem eru í efri hlutanum býsna fín. En gegn liðunum sem eru fyrir neðan vinnast ekki jafnmörg stig. Það er oft merki um skort á ákveðnum þroska eða slíku sem þarf að vinna með. Ef þú heldur áfram að ná góðum úrslitum á móti liðunum í kringum þig og vinnur leikina á móti þeim sem eru fyrir neðan færist þú nær þessu. En metnaðurinn er að gera enn betur en hefur verið.“