Darwin Nunez, framherji Liverpool, hefur tjáð sig um ótrúlegt klúður sitt fyrir opnu marki í Evrópudeildinni í gær.
Liverpool tók á móti Toulouse. Eftir að Diogo Jota hafði komið heimamönnum yfir á 9. mínútu jafnaði Thijs Dallinga fyrir franska liðið en eftir það gekk Liverpool frá dæminu.
Wataru Endo kom þeim yfir á 31. mínútu og skömmu síðar gerði Darwin Nunez þriðja markið.
Ryan Gravenberch kom Liverpool í 4-1 á 65. mínútu þegar hann fylgdi eftir dauðafæri sem Nunez klikkaði á og Mohamed Salah innsiglaði 5-1 sigur eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
„Þetta er allt í lagi. Ég er enn sterkur og held áfram að reyna að bæta mig persónulega og hjálpa Liverpool,“ skrifaði Nunez á samfélagsmiðla eftir klúðrið.