Alan Brazil hjá Talksport segir frá sögu um Erik Ten Hag þar sem fram kemur að flestir leikmenn Manchester United séu búnir að fá nóg af stjóranum.
Ekkert hefur gengið hjá Manchester United í upphafi tímabils en Ten Hag er á sínu öðru ári hjá félaginu.
„Þetta er það sem ég hef heyrt og þetta kemur frá áreiðanlegum manni sem talaði við leikmann Manchester United. Þeir nenna ekki stjóranum lengur,“ segir Brazil á Talksport.
„Þeir hafa bara fengið nóg af honum, það er staðan.“
Brazil segir að leikmenn United séu mjög ósáttir með þá meðferð sem Ten Hag hefur gefið Cristiano Ronaldo og Jadon Sancho.
„Þeir eru mjög ósáttir með það hvernig hann kom fram við Cristiano og svo segja þeir að Sancho sé duglegur leikmaður sem leggi sig alltaf fram.“
„Ég veit ekki hverju ég á að trúa lengur.“