Elmar Atli Garðarsson, leikmaður Vestra, var nánast orðlaus eftir leik liðsins við Aftureldingu í kvöld.
Leikið var á Laugardalsvelli en Vestri vann viðureignina 1-0 og tryggði sér sæti í Bestu deild karla.
Það þurfti framlengingu til að útkljá þessa viðureign en eina markið gerðu Vestramenn.
,,Eins og ég sagði áðan og hef sagt í síðustu tveimur viðtölum sem ég fór í, ég veit ekki almennilega hvað er í gangi, þetta er ólýsanlegt,“ sagði Elmar.
,,Það voru ekki mörg færi í þessum leik heilt yfir, sanngjarnt eða ekki sanngjarnt mark sem við skorum, við skorum þetta mark og mér fannst við getað spilað 90 mínútur í viðbót án þess að fá á okkur mark.“
,,Þetta er bilað. Ég er enn að meðtaka þetta allt, þetta er svo nýtt fyrir mér sérstaklega en það er fullt af gæjum í liðinu okkar sem hafa spilað stóra leiki í útlöndum. Fyrir mig, heimastrák að vestan, maður hefði aldrei trúað því að geta komið liðinu í þessa stöðu.“