Íþróttavikan heldur áfram að rúlla á 433.is og í Sjónvarpi Símans en nýr þáttur kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum og að þessu sinni var gesturinn Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar er stuðningsmaður Manchester United í enska boltanum en er eðlilega ekki hrifinn af því sem er í gangi hjá félaginu þessa stundina.
„Ég er versti Manchester United stuðnigsmaður í heimi því ég elska City og Liverpool,“ sagði Arnar léttur.
Hann var spurður hvort hann teldi Erik ten Hag rétta manninn til að stýra United.
„Mér finnst erfitt að segja til um það því vesenið sem hefur fylgt United undanfarin ár hefur ekkert með að gera það sem gerist inni á vellinum heldur utan hans. Ímyndið ykkur vandamálin sem hann er búinn að glíma við frá því hann tók við. Alls konar vesen hingað og þangað, Ronaldo, Greenwood, Sancho, Antony.“
Spilamennskan heillar Arnar þó ekki.
„Það er enginn strúktur á því hvernig liðið spilar. Bestu liðin hafa strúktúr en það er chaos hjá United. Leikmenn sem hafa verið sóttir undanfarin ár eru ekki prófílar sem henta liðinu.“