Gylfi Þór Sigurðsson setur stefnuna nú á landsliðið eftir að hafa snúið aftur á knattspyrnuvöllinn í fyrsta sinn í 852 daga á föstudag.
Gylfi kom inn á og spilaði um 20 mínútur í jafntefli Lyngby gegn Vejle. 433.is var á staðnum og ræddi við kappann eftir leik. Þar var landsliðið meðal annars tekið fyrir.
„Ég væri ekki hér í dag ef mig langaði ekki að spila fyrir landsliðið. Það er eina markmiðið að komast aftur á Laugardalsvöll og að spila fyrir Ísland með strákunum,“ sagði Gylfi.
Gylfi vill vera með strax í næsta landsliðsverkefni í október.
„Ég vil spila alla leiki. Alveg sama í hvaða standi ég er í vil ég alltaf spila fyrir Ísland. Næsta skref eru landsliðsverkefni í október og nóvember svo vonandi verð ég kominn heim í október.“
Það var farið yfir víðan völl í viðtalinu við Gylfa og má sjá það í heild í spilaranum.