Eins og flestir vita nú markaði gærdagurinn endurkomu Gylfa Þórs Sigurðssonar á knattspyrnuvöllinn. Stemningin fyrir endurkomu hans á leikvanginum í Lyngby var ólýsanleg.
Fyrirfram hafði ég sannarlega ætlað að stemningin fyrir endurkomu Gylfa yrði mikil en ég gerði mér þó ekki alveg grein fyrir hversu stórt stuðningsmenn Lyngby litu á þessa stund.
Nafn Gylfa Þórs var sungið hástöfum fyrir leik af bæði Dönum og Íslendingum, en fjöldinn allur lagði leið sína frá Íslandi til Danmerkur á leikinn.
Leikvangurinn var smekkfullur og miðað við það sem manni var sagt er erfitt að komast í betri stemningu en á heimavelli Lyngby á föstudagskvöldi. Andrúmsloftið var ótrúlegt og endurkoma Gylfa gerði kvöldið enn sérstakara.
Þó svo Gylfa hafi verið fagnað dátt í upphitun voru fagnaðarlætin enn meiri þegar hann kom inn á þegar um 20 mínútur lifðu leiks Lyngby og Vejle í gær. Eins og Freyr Alexandersson þjálfari sagði réttilega við mig í viðtali eftir leik voru fagnaðarlætin við innkomu Gylfa enn meiri en við marki liðsins í 1-1 jafnmteflinu í gær.
Gylfi er þó auðvitað ekki eini Íslendingurinn hjá Lyngby. Sem fyrr segir er Freyr þjálfari liðsins og þá eru Andri Lucas Guðjohnsen, Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Birgir Finnsson þar á mála einnig.
Íslensku áhrifin leyna sér ekki í kringum leikvanginn og er varningur tengdur Íslandi áberandi í búð liðsins.
Það er óhætt að segja að fólkið í Lyngby elski Íslendinga. Mér var til að mynda tjáð af starfsmanni á vellinum í gær að Íslendingar væru ekki álitnir útlendingar í Lyngby.
Þetta kemur þó ekki að sjálfu sér. Freyr hefur unnið hörðum höndum að því að tengja saman liðið og stuðningsmenn. Þá hafa íslensku leikmennirnir sem hann hefur fengið allir staðið sig og gefa þeir allir líf og sál fyrir treyju Lyngby.
Það var frábært að heimsækja heimavöll Lyngby og upplifa þetta augnablik. Ég tel ekki ólíklegt að ég kíki þangað á ný.