Kyle Walker hefur lengi verið einn allra mikilvægasti leikmaður Manchester City en hann lék ekki í bakverðinum er liðið vann Meistaradeildina fyrr á þessu ári.
Pep Guardiola, stjóri Man City, ákvað að hafa Walker á bekknum í úrslitaleik gegn Inter Milan, eitthvað sem kom mörgum á óvart.
Walker segir þó að Guardiola hafi farið rétt að hlutunum og fékk hann að heyra fréttirnar degi áður en leikurinn fór fram frekar en á leikdegi.
,,Þetta var aldrei mín ákvörðun, þetta er undir stjóranum komið og hvernig við vorum að spila á þessum tímapunkti. Hann hefði getað valið 16 mismunandi leikmenn en hann þarf að velja 11,“ sagði Walker.
,,Ég var óheppinn að fá ekki kallið en þetta er liðsíþrótt. Ég hugsa um liðið og sem betur fer gekk þetta upp. Við kláruðum okkar verkefni og unnum titilinn.“
,,Hann ræddi við mig kvöldið áður, þannig er okkar samband. Ég þakkaði honum innilega fyrir því að komast að þessu á leikdegi hefði verið mjög erfitt.“
,,Ef hann hefði rætt við mig á leikdegi væri ég miður mín en hann valdi þá 11 sem hann taldi besta fyrir leikinn.“