Ole Gunnar Solskjær, fyrrum stjóri Manchester United, viðurkennir að það hafi verið mistök að fá Cristiano Ronaldo aftur til félagsins.
Sumarið 2021 sneri Ronaldo aftur til United og var Solskjær stjóri. Hann var rekinn á sama tímabili.
„Það var erfitt að hafna þessu boði og mér fannst við þurfa að taka hann. En þegar allt kemur til alls var það ekki rétt skref,“ segir Solskjær við The Athletic.
Eins og flestir vita fór Ronaldo í fússi frá United í fyrra en hann er í dag hjá Al Nassr í Sádi-Arabíu.
„Þetta virkaði eins og rétt skref eftir að hann skrifaði undir og aðdáendurnir fundu líka fyrir því í leiknum gegn Newcastle. Andrúmsloftið á Old Trafford var frábært.
Hann var enn þá einn besti markaskorari í heimi. Hann leit vel út.“