Erik ten Hag stjóri Manchester United segir að hann hafi verið ráðinn til félagsins til að laga agaleysið í leikmannahópnum.
Ten Hag tjáir sig um málið í skugga þess að Jadon Sancho fær nú ekki að æfa með liðinu eftir stríð við stjórann.
Ten Hag hefur þurft að taka á ýmsu hjá félaginu og hann tók á máli Cristiano Ronaldo á síðasta tímabili.
„Þetta snýst um uppbyggingu liðsins og andan í hópnum. Þetta snýst um liðið, liðið er mikilvægara en nokkuð annað. Það eru mismunandi karakterar en liðið er alltaf í fyrsta sæti,“ segir Ten Hag.
„Félagið bað mig um að laga agaleysið sem var þegar ég tók við, það var ekki gott hérna. Ég átti að setja standarinn, mitt starf er að stýra þessu.“
„Þetta snýst ekki um að einhver geri ein mistök, það er vegferð að því þegar að svona kemur. Ef starfsmaður, leikmaður eða hver sem er fer yfir strikið, þá verður þú að vera sterkur.“
Hann vildi ekki ræða málefni Sancho neitt frekar og sagði að búið væri að segja allt um málið.