Framtíð Jadon Sancho, leikmanns Manchester United, er í lausu lofti eftir opinbert ósætti við stjórann Erik ten Hag.
Kantmaðurinn ungi var skilinn eftir utan hóps í síðasta leik United gegn Arsenal og sagði Ten Hag ástæðuna vera frammistöðu hans á æfingum. Sancho svaraði þessu hins vegar fullum hálsi á samfélagsmiðlum.
Það vakti hins vegar athygli í gær þegar Sancho eyddi færslunni. Gerði hann það degi eftir fund við Ten Hag, þar sem reynt var að ná sáttum. Ekki er ljóst hvort það hafi tekist.
The Athletic fjallar nú vel um þetta mál og miðað við umfjöllun miðilsins virðist sem svo að Sancho hafi fengið öðruvísi meðferð en aðrir hjá United frá upphafi.
Þar kemur fram að Ten Hag og aðrir þjálfarar United hafi sett dagskrá Sancho klukkustund á undan öðrum leikmönnum til að leikmaðurinn yrði örugglega mættur á réttum tíma á fundi.
Einnig er sagt frá því að á tíma Sancho hjá Dortmund hafi það gjarnan verið vandi hans að mæta of seint.
Sancho gekk í raðir United frá Dortmund sumarið 2021 og kostaði 73 milljónir punda. Hann hefur engan veginn staðið undir væntingum.