Það er óhætt að segja að Åge Hareide, þjálfara íslenska karlalandsliðsins, sé illa við myndbandsdómgæslu, VAR. Hann ræddi þetta á blaðamannafundi eftir leik Íslands gegn Bosníu-Hersegóvínu í gær.
Leikurinn var liður í undankeppni EM 2024 og vann íslenska liðið 1-0 með dramatísku sigurmarki Alfreðs Finnbogasonar í uppbótartíma.
Um tíma var hræðsla um að markið yrði dæmt af vegna rangstöðu en eftir langa skoðun í VAR komust dómarar að því að markið væri gott og gilt. Hareide var spurður út í biðina eftir því að fá að vita það.
„Ég hata VAR,“ sagði hann þá. „Ég treysti dómurunum sem eru á vellinum.“
Hareide tók dæmi um leikinn á móti Portúgal í sumar þar sem hann taldi að sigurmark Cristiano Ronaldo hefði ekki átt að fá að standa. VAR sneri dómnum við en upprunalega hafði verið dæmd rangstaða.
„Á móti Portúgal sá dómarinn að það var rangstaða. Ég hefði getað fengið rautt spjald frá dómaranum fyrir að reyna að útskýra af hverju þetta var það. Það voru þrír menn í vítateignum og tveir af þeim rangstæðir. Sá þriðji var á milli þeirra og var ekki rangstæður en hann skallaði boltann niður til Ronaldo. Hinir tveir eru hluti af sókninni. Svo er maður í einhverri rútu sem tekur þessa ákvörðun þegar línuvörðurinn sér þetta vel.
Ég hata VAR því fótbolti snýst um það sem er að gerast núna. Hann snýst ekki um að bíða í fimm mínútur til að fá útskýringu frá einhverjum í rútu.“