Lúxemborg vann leikinn 3-1 og er óhætt að segja að íslenska liðið hafi átt afleitan dag.
Ríkharð telur að Guðmundur, sem er leikmaður Crete í grísku úrvalsdeildinni, hafi átt skilið að fá fleiri A-landsleiki í gegnum tíðina en þá tólf sem hann er með. Kappinn kom ekki við sögu gegn Lúxemborg.
„Maður veltir fyrir sér hvað Gummi Tóta gerði KSÍ. Án alls gríns. Lykilmaður í Superliga í Grikklandi hjá sinu liði með mark eftir 3 leiki. Lykilmaður í sigri Crete gegn risaliði PAOK. Hefur hann fengið séns að einhverju viti? Miðað við allt sem hann hefur gert sem pro player?“ skrifaði Ríkharð á Twitter eftir leik.
Hann ræddi málið svo nánar í Þungavigtinni í gær.
„Ég er ekki hlutlaus. Gummi Tóta er góður vinur minn. En ég skil þetta ekki. Alls staðar sem hann hefur spilað sem atvinnumaður hefur hann verið byrjunarliðsmaður. Hann tók MLS titilinn, er lykilmaður í grísku úrvalsdeildinni.
Hann á 12 A-landsleiki og þetta eru nær allt einhverjir vináttuleikir,“ sagði Ríkharð í þættinum.
Ísland mætir Bosníu-Hersegóvínu í næsta leik annað kvöld. Leikurinn fer fram hér heima.