Auðunn Blöndal er einn harðaðsti stuðningsmaður Manchester United á Íslandi en hann segir skemmtilega sögu frá síðustu helgi þegar hann bauð tengdaforeldrum sínum heim til sín að horfa á leik Arsenal og Manchester United.
United taldi sig hafa unnið leikinn á 88 mínútu þegar Alejandro Garnacho skoraði, eftir langa skoðun var hann dæmdur rangstæður.
Það var svo á 97 mínútu sem Arsenal henti í tvö mörk og vann leikinn, eitthvað sem fór illa í skemmtikraftinn geðuga.
„Við fengum tengdó yfir, þetta var svo vandræðalegt allt. Þegar Garnacho skorar á 88 mínútu, þá stend ég upp og fagna mikið. Ég stíg í kassa af kubbum sem strákarnir eiga og flýg á hausinn,“ segir Auðunn í Blökastinu.
Þátturinn var frumsýndur á þriðjudag en Auðunn var þá með far á hendinni. „Ég er með far hérna, ég dett á einn kubbinn og meiddi mig. Svo er það dæmt af, viðbjóður og þau hlæja af mér. Tengdamamma fer að spyrja hvort það sé í lagi með mig,“ segir Auðunn.
„Það er dæmt af, þá varð ég reiður, algjör viðbjóður. Svo skorar Arsenal á 97 mínútu, ég tók bílinn. Ég varð að finna mér afsökun, ég vildi ekki að tengdaforeldrar mínir myndu sjá mig hvað ég er ruglaður.“
„Ég spurði hvort bílinn væri ekki uppi, ég sagðist ætla niður með hann í hleðslu. Ég fór ekki í jakka, ég þurfti bara að kæla mig niður. Mig langaði að bíta mig í hendina.“
Steinþór Hróar Steinþórsson, félagi Auðuns í Blökastinu hafði þetta að segja. „Þetta er eins og krakki myndi láta,“ segir Steindi.