Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins, var skiljanlega svekktur eftir 3-1 tap gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024 í kvöld.
Ísland þurfti sigur í leiknum og er vonin um að fara á EM í gegnum undankeppnina nú ansi veik.
„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Við gefum þeim forskot á fyrstu mínútunum. Við ætluðum okkur sex stig í þessum glugga. Það voru of mörg mistök í dag,“ sagði Jóhann Berg við Stöð 2 Sport eftir leik.
„Við fáum á okkur þrjú mörk og það er ekki nógu gott. Það er ekki hægt að gera svona mörg mistök í landsliðsfótbolta.“
Ísland mætir Bosníu-Hersegóvínu á mánudag. Liðið þarf að reyna að rífa sig upp þar.
„Við verðum að reyna að gleyma þessum leik eins fljótt og hægt er.“