Þættirnir eru á dagskrá í hádeginu alla laugardaga og hafa notið mikill vinsælda. Tómas og Elvar sinna þættinum þó alfarið án þess að fá greitt fyrir.
„Þetta er gott og slæmt. Þetta er gott að því leyti að við erum engum háðir. Frá fyrsta degi til þess síðasta hefur enginn haft áhrif á umræðuna. Við erum þarna fyrir okkur sjálfa,“ segir Tómas í þættinum, spurður út í það.
Fólk í kringum Tómas hefur stundum sett spurningamerki við að hann haldi þættinum úti án endurgjalds.
„Mér fannst þetta alltaf algjör snilld en frá því ég byrjaði með konunni minni hefur hún bent mér nokkrum sinnum á að þetta sé það heimskulegasta sem ég geri,“ segir Tómas léttur í bragði.
„Það var eiginlega best þegar ég sagði Eiði Smára frá þessu á sínum tíma. Ég hélt hann myndi missa andlitið. Hann bara trúði þessu ekki. Þá hugsaði ég: Er ég svona ógeðslega heimskur?“