Manchester United stuðningsmanninum Kristjáni Óla Sigurðssyni var ekki skemmt yfir tapi liðsins gegn Arsenal í gær. Leikurinn var tekinn fyrir í Þungavigtinni.
United tapaði á afar svekkjandi hátt. Í stöðunni 1-1 hélt Alejandro Garnacho að hann væri að skora sigurmark leiksins en markið var dæmt af í VAR vegna rangstöðu. Hann var afar naumlega fyrir innan.
Declan Rice skoraði þess í stað fyrir Arsenal á 96. mínútu áður en Gabriel Jesus innsiglaði 3-1 sigur.
„Markið sem var dæmt af Garnacho gerði það að verkum að ég sagði upp áskriftinni að enska boltanum beint eftir leik. Þetta er bara kjaftæði,“ sagði reiður Kristján í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Þáttastjórnandinn Ríkharð Óskar Guðnason var hissa á þessu.
„Ætlarðu að láta það bitna á Símanum að hann hafi verið rangstæður?“ spurði hann, en Síminn Sport er auðvitað rétthafi enska boltans á Íslandi.
„Má ég ekki hætta að horfa á enska boltann?“ spurði Kristján til baka.
Hann telur VAR hafa skoðað vitlaust sjónarhorn er Garnacho var dæmdur rangstæður en Ríkharð var ekki sammála.
„Reglur eru reglur. Hann var rangstæður.“