Það eru margir steinhissa á að mark Nathan Ake gegn Fulham í gær hafi fengið að standa.
Ake skoraði annað mark Man City í öruggum 5-1 sigri og kom liðinu í 2-1 rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.
Manuel Akanji, liðsfélagi Ake, var klárlega rangstæður í markinu og truflaði markmann Fulham verulega.
Dómarateymið ákvað að dæma markið gott og gilt og er það ákvörðun sem kemur mörgum á óvart.
Marco Silva, stjóri Fulham, var svo sannarlega ósáttur er hann ræddi við blaðamenn eftir lokaflautið.
,,Hvað get ég sagt? Allir sem spila fótbolta, allir sem þekkja til fótbolta sjá að þetta mark var 100 prósent ógilt,“ sagði Silva.
,,Auðvitað erum við allir brjálaðir þegar svona ákvörðun er tekin gegn þér. Þetta gæti verið erfitt fyrir línuvörðinn og að sjá hvort hann sé rangstæður en það er ómögulegt að VAR taki ekki ákvörðun.“
,,Leikmaðurinn hoppar frá boltanum í rangstöðu og hafði full áhrif á markmanninn. Hvernig ákvað VAR ekki að dæma markið ógilt?“