Víkingar gefa lítið fyrir þá skýringu Breiðabliks að klefarnir á heimavelli þeirra séu ekki boðlegir fyrir gestaliðið eins og haldið hefur verið fram undanfarin sólarhring.
Guðmundur Benediktsson, hjá Stöð2 Sport sagði frá þessu í gær og þessu var einnig haldið fram í hlaðvarpsþættinum, Þungavigtin.
Kristján Óli Sigurðsson, fyrrum leikmaður Breiðabliks og sérfræðingur Þungavigtarinnar sagði að Blikar hefðu tekið ákvörðun um það í fyrra að nota ekki aftur klefana í Víkinni.
Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi gefur lítið fyrir þessar útskýringar en Blikar notuðu ekki klefann fyrir og eftir leik gegn Víkingi í Bestu deildinni á sunnudag.
„Þetta er bara eins og á Laugardalvelli, strípað og old school,“ segir Kári í samtali við 433.is og bauð blaðamanni að kíkja á klefana. Hann sagði klefann vera með snögum og fínum sturtum.
Mikael Nikulásson, hjá Þungavigtinni gaf lítið fyrir þessar útskýringar sem komið hafa fram og kallaði þetta leikþátt hjá Breiðablik í kringum þennan leik.
Blikar reyndu að fá leiknum á sunnudag frestað vegna þátttöku þeirra í Evrópukeppni en KSÍ og Víkingur töldu það ekki hægt. Blikar voru verulega ósáttir og mættu rúmum tuttugu mínútum fyrir leik á rútu og fóru heim með henni beint eftir leik.