Það fer fram stórleikur í Bestu deild karla í kvöld er Breiðablik heimsækir Víking Reykjavík í lokaleik helgarinnar.
Breiðablik reyndi að fresta þessum leik en fékk höfnun frá KSÍ en liðið er í Evrópukeppni og á leik í næstu viku gegn FC Struga.
Það tók Blika langan tíma að mæta til leiks á Víkingsvelli og var byrjunarlið liðsins ekki birt fyrr en um 30 mínútum eftir að lið Víkings var birt.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, tjáði sig við Stöð 2 Sport áður en flautað var til leiks.
,,Við ákváðum að undirbúa okkur á Kópavogsvelli því það er stutt síðan við komum frá Makedóníu og töldum nauðsynlegt að eyða tíma þar,“ sagði Óskar.
,,Við reyndum að fá þessum leik frestað en við fengum ekki skilning frá KSÍ og það bar fyrir sig óþægindi fyrir önnur lið.“
,,Víkingur vildi ekki spila í landsleikjahlénu, bæði lið missa leikmenn. Þeirra leikmenn í færeyska landsliðið og okkar leikmenn í U21 landsliðið en þeir vildu ekki spila.“
,,Ekkert mál og ég verð aðs bera virðingu fyrir því. Þeir hafa ekki verið í þessari stöðu sem við erum í, þeir hafa unnið eitt einvígi á þremur árum í Evrópu og ég hef fullan skilning á því.“